top of page

Reiðnámskeið sumarið 2020


Kæru vinir,

Það hafa margir komið að máli við okkur og spurt út í fyrirkomulag reiðskólans á þessum fordæmalausu tímum. Margir eru hugsi yfir hvort og þá með hvaða hætti verður hægt að halda úti reiðnámskeiðum miðað við stöðu mála.

Okkur langaði því að upplýsa ykkur um framvinduna. Þessa dagana erum við á fullu að undirbúa reiðnámskeiðin og opnuðum við fyrir skráningar í febrúar síðastliðinn. Við munum fara eftir öllum tilmælum yfirvalda varðandi umgengni og þrif á öllum snertiflötum og fylgja þeim fyrirmælum sem almannavarnir mælast til fyrir.

Mest öll starfsemin fer fram utandyra og á reiðnámskeiðunum eru aldrei fleiri en 15 nemendur í hóp. Fjarlægð milli nemenda í reiðtúrum er sjálfkrafa a.m.k. 2 metrar eða meira. Við bóklega kennslu sem fer fram hluta úr degi munum við virða þau tilmæli sem okkur eru sett varðandi fjarlægðarkröfur.

Það er okkur afar mikilvægt að hugsa um hag og heilsu starfsmanna og nemenda okkar og skipta vinnubrögðin, undirbúningur og þjálfun starfsfólks öllu máli. Við fylgjumst vel með framvindu næstu vikna og verðum viðbúin þeim tilmælum sem starfseminni verður sett.

Við skulum jafnframt hafa í huga að um er að ræða tímabundnar ráðstafanir og það er nauðsynlegt sem aldrei fyrr að stytta sér stundir, halda í gleðina og hugsa um andlega heilsu og vellíðan. Við erum þess sannfærð að sumarið verði gott til að sinna hestamennsku, njóta útivistar og að vera í návisti við hestana, þessi dásamlegu dýr sem gefa svo mikið af sér.

Ef það er eitthvað sem ykkur liggur á hjarta þá hafið þið endilega samband við okkur.

Hestaknúz og hlýjar kveðjur, Edda Rún og Siggi Matt.


0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page